Umferðarmannvirki tengja saman fólk og svæði. Þau efla þannig mannlíf á sama tíma og þau gera mögulega uppbyggingu sem ekki var fyrir hendi áður. Fyrir vikið er lausn umferðarvandans óaðskiljanlegur hluti á lausn lóðavanda borgarinnar.
Samgöngussáttmálinn er mistök sem verður að hafna
Núverandi samgöngusáttmáli ríkis og borgar er óásættanlegur fyrir Reykvíkinga. Flest umferðarmannvirkin sem til stendur að byggja eru afar óhagkvæm, og megnið af kostnaðinum fer í að þjónusta annað en almenna umferð. Dæmi um slíka sóun er brú til Kópavogs, Miklubrautarstokkur, Sæbrautarstokkur og borgarlínan. Þrátt fyrir þetta stendur til að ökumenn þurfi að borga brúsann gegnum þvinguð veggjöld. Öll þessi verkefni eru sóun á almannafé og sem verður að stöðva strax svo hægt sé að beina umferðarfé í hagkvæm umferðarmannvirki sem skila raunverulegum ávinningi strax til baka.
Leysum umferðarvandann strax (fyrir brot af kostnaði)
Í umferðarmálum hefur mikil áhersla farið í að horfa til rándýrra umferðarlausna og einfaldar lausnir ýmist tafðar eða þeim hafnað. Sem dæmi um slíkt, þá má auka afköst Miklubrautar verulega með bættri umferðarstýringu á annatímum. En til að slík umferðarstýring virki vel, þarf að lágmarka alla truflun sem getur orðið á umferðarflæðinu. Tvö gönguljós á Miklubrautinni eru dæmi um slíka truflun, sem vel mætti komast hjá. Setja ætti í algjöran forgang að skipta út slíkum hindrunum með hjáleið undir eða yfir stofnbrautina. Ég mundi tala fyrir því að strax yrðu gerðar slíkar úrbætur, þ.a. ávinningurinn yrði kominn í ljós ekki seinna en 2024.
Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar er dæmi um annan umferðartappa sem vel mætti leysa því frumhönnun mislægra gatnamóta er þegar tilbúin. Ef lágmarka þarf umhverfisáhrif gatnamótanna vegna skerðingu útisvistarsvæðis í Elliðaárdal þá skal það gert innan þeirra marka sem raunhæft þykir, en undir engum kringumstæðum er ásættanlegt að hætta við framkvæmdina. Hefja þarf framkvæmdir við þessar umferðarúrbætur strax.
Heildstæð langtímalausn
Til að koma með raunverulegar lausnir til frambúðar þarf að leysa málin heildstætt miðað við raunhæfa langtímaþróun. Allar nýlegar áætlanir byggja hins vegar óraunhæfri óskhyggju borgarfulltrúa um stórfellda aukingu strætónotkunar og að fólk muni velja að búa á dýrustu svæðum borgarinnar, svokölluðum þéttingasvæðum. Ekkert bendir til að þessi framtíðarmynd muni rætast. Raunhæfar hagkvæmar lausnir hafa hins vegar verið skoðaðar áður fyrr.
2003 birti vegagerðin áætlun sem fól í sér að skipta út öllum ljósum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut svo umferðin á þessum megin stofnæðum borgarinnar yrði hindranalaus. Áframhaldandi vinna í slíkri lausn er að mínu mati lykillinn að því að finna framtíðarlausn sem allir gætu sætt sig við. Bæði einkabílar og almenningssamgöngur myndu njóta góðs af því að helstu umferðarhnútar yrðu leystir. Þótt um dýrar framkvæmdir eru að ræða, yrði slík lausn sem leysti megnið af umferðarvandanum ekki dýrari en fyrirhugaður Miklubrautarstokkur sem aðeins myndi leysa brot af vandanum.
Sjá greinar (Tvær ólíkar framkvæmdir)
Hröð uppbygging á Keldnalandi
Húsnæðisvandinn í Reykjavík felst einkum í því að meðan borgin rukkar mikið fyrir lóðir og leyfir aðeins byggingu á dýrustu svæðunum, rýkur byggingarkostnaður upp og með því fasteignaverð. Skortur á ódýru hagkvæmu húsnæði er einfaldlega birtingamynd þess að grunnkostnaður við nýbyggingar hefur hækkað vegna þessarar tekjuöflunar borgarinnar.
Forsendan fyrir því að hægt sé að lækka húsnæðisverð er að byggt sé mikið og ódýrt. Keldnaland hentar sérstaklega vel til slíkrar hraðrar uppbyggingar. Helst stofnæða borgarinnar liggur upp að svæðinu, svæðið er stórt og auðvelt í skipulagningu og með að tryggja nægt framboð lóða víðar er hægt að lækka lóðakostnað verktaka, sem mundi hraða uppbyggingu og lækka verð.
Sjá grein (Reynt að leysa rangt húsnæðisvandamál)
Svarið er í Viðey
Ef þú vilt búa ódýrt í Reykjavík, þarftu að búa á Kjalarnesi. En þá tekur það þig líka yfir hálftíma að komast niður í bæ. En hvað ef þér væri sagt að hægt væri að stytta ferðina í 10 mínútur? Færa kjalarnesið nær miðbænum en öll önnur úthverfi?
Þessi framtíðarsýn myndi raungerast ef Sundabrautin væri tekin gegnum Viðey.
En af hverju ætli slík vegtenging hafi aldrei verið skoðuð fyrr. Ein ástæðan kann að liggja í því að undirbúningur Sundabrautarinnar hefur tekið næstum hálfa öld sem er nánast fyrir tíma jarðgangna og án tillits til þeirrar þróunar sem orðið hefur. En eftir að Reykjavíkurborg skipulagði íbúðabyggð í vegstæði hagkvæmustu legu Sundabrautar var sú leið útilokuð og bara dýrir kostir eftir. Með því að endurskoða verkefnið ekki frá grunni og skoða fleiri kosti eftir að þessi staða kom upp eru yfirvöld hins vegar að missa lang bestu lausninni sem mundi umbylta öllum samgöngum borgarinnar til frambúðar. Í stað Sundabrautar ætti að byggja Viðeyjarbraut sem tengir Laugarnesið við Viðey, Gufunes og Brimnes á Kjalarnesi.
Leiðin í bæinn mundi styttast um 16 km sem mundi spara 20 mínútur hvora leið.
Með Viðeyjarbraut mundi aðgengilegt ónotað byggingarland verða jafnstórt og land sem eru undir byggð í dag. Algjört offramboð yrði á lóðum sem mundi tryggja lágt lóðaverð um langa framtíð.
Með því að tengja Viðeyj við Laugarnesið með botngöngum væri auðvelt bæta hjólastíg við hlið vegganganna. Þá væri hægt að grípa rafhjól við Hörpu og renna fyrrihafnarlaust út í Viðey á örfáum mínútum. Eyjan gæti þannig orðið framlenging á miðbænum þegar fram í sækir.
Sjá grein (Einkarekin Reykjavík)
댓글