Það er kominn tími á nýjan Spöl.
Sjaldan er ein báran stök. Eldgos fæla frá ferðamennina, Grindavík mun kosta 60 milljarða, útlendingamálin 40 milljarða, nýlegir kjarasamningar 80 milljarða og hundraða milljarða covid-reikningurinn er enn ógreiddur. Verðbólgudraugurinn og húsnæðisneyðin eru komin til að vera, því það er ekki hægt að eyða sig úr kreppu.
Sundabraut mun kosta 150 milljarða
Stærsta verkefnið á teikniborðinu í dag er af dýrari gerðinni, Sundabraut á 89-147 milljarða. Þessi verðmiði á eftir að hækka því fjöldi tengdra framkvæmda er enn ótalinn, eins og Sæbrautarstokkurinn á allt að 27 milljarða og framlenging Hallsvegar.
Náttúruverndarsjónarmið eru einnig vanmetin. Loka á sundinu milli Geldinganess og Álfsness með landfyllingu og aðeins 1/6 hluti verður brú. Sex ferkílómetra fjörður með friðlýstu landi, leirum, fjölbreyttu dýralífi og sellátri gæti orðið fyrir miklu raski vegna breytinga sjávarfalla nema meira verði kostað til.
Verðmiðinn mun því nálgast 150 milljarða áður en yfir lýkur. Reynslan af svipuðum framkvæmdum sýnir það.
Þessi peningur er ekki til svo annaðhvort frestast framkvæmdir eða ný tollahlið munu rísa í Ártúnsbrekku á alla umferð. Er þetta virkilega nauðsynlegt?
Laugarnesgöng á 30 milljarða
Það er til betri leið: Gangalausn alla leið úr bænum. Enn hefur slík lausn ekki verið skoðuð og því fór Skipulagsstofnun fram á að það yrði gert í umhverfismati Sundabrautar.
Langbesta staðsetningin fyrir slík göng væri frá Laugarnesi. Þar er styst að fara, þar mætast helstu stofnbrautir (Sæbraut, Reykjanesbraut og Kringlumýrarbraut) og pláss er fyrir stór umferðarmannvirki. Göng frá Laugarnesi til Brimness gæfu einnig 16 km styttingu í stað 9 km styttingar Sundabrautar.
Þar sem umferð út úr bænum er minni duga Laugarnesgöngum ein göng á meðan Sundabrautin þarf tvenn fyrir innanbæjarumferðina. Fyrir vikið er kostnaðurinn mun lægri, eða 30 milljarðar í stað 150 milljarða fyrir Sundabraut (byggt á raunkostnaði Hvalfjarðarganga). Þessi göng eru það hagkvæm að veggjöldin ein duga fyrir grunnfjármögnun og því yrði framkvæmdin mögulega ókeypis fyrir skattgreiðendur!
Rangt pakkatilboð
Pakkatilboð er þekkt söluaðferð til að auka sölu. Þá er ónauðsynlegum vörum blandað í sama pakka og nauðsynjavörurnar og allt selt saman. Sundabrautin er dæmi um slíkt pakkatilboð. Þegar Laugarnesgöngin eru komin verður seinni áfangi Sundabrautar tilgangslaus. Eftir stendur þá þörfin fyrir að leysa umferðarhnútinn á Miklubraut á annatímum, en það þarf enga rándýra Sundabraut til þess. Einfaldast er að leysa umferðarhnúta þar sem þeir verða til. Stærsti umferðarhnúturinn er við stærstu gatnamót landsins, mót Reykjanesbrautar og Miklubrautar. Þessi ríflega hálfrar aldar gömlu gatnamót eru ein elstu mislægu gatnamót landsins. Þrátt fyrir mikla aukningu í umferð hafa þessi gatnamót og nágrenni ekki þróast nægjanlega til að anna aukningunni. Næstu gatnamót á Reykjanesbraut og Sæbraut eru ljósastýrð og stífla umferð langt inn á Miklubraut og Miklubrautarbrúin sjálf er of þröng á annatíma með beygjuakreinar sem valda töfum. Öll þessi gatnamót þarf að laga strax. En það verður ekki gert með Sundabrautinni því hún býr til nýjan umferðarvanda því hún tengist Sæbrautinni á versta umferðarteppukaflanum. Ef sá vandi verður ekki lagaður fyrst er hætt við að Sundabrautin verði líka stífluð. Skipulagsstofnun fór fram á að þetta yrði skoðað líka í umhverfismatinu.
Framtíðarsýn Laugarnesganga
Laugarnesgöng hafa ekki þennan annmarka, því tengingin við Sæbraut er á mun hentugri stað og umferð þaðan og þangað í öfugum fasa við ríkjandi umferðarstefnur stofnæða, sem eykur nýtingu núverandi stofnæða höfuðborgarinnar.
Framtíðarþróun Laugarnesganga býður enn fremur upp á vaxtarmöguleika sem nær langt út fyrir hvað hægt væri með Sundabrautinni. Þegar umferð vex og byggð vex er hægt er að gera ný samhliða göng, gangatengingu við Mosó, Álfsnes og Geldinganes og gangatengingu við Grafarvog í gegnum Viðey. Algjör óþarfi er að fara í slíkar framkvæmdir strax, heldur er hægt að bíða þar til tengingarnar eru orðnar það hagkvæmar að þær verði sjálfbærar.
Til samanburðar verður að yfirhanna Sundabraut strax fyrir alla framtíðarumferð, sem skýrir háan verðmiða.
Björgum selunum og stofnum nýjan Spöl
Stundum verða gæluverkefni hins opinbera eins og lest án lestarstjóra. Því meira fé sem verkefnin fá, þeim mun erfiðara er að stöðva lestina. Lestarslys skattgreiðenda blasir þó við ef haldið verður áfram á sömu braut og hætt er við að ökumenn sem fara um nýju fínu tollhliðin í Ártúnsbrekkunni og Sundabraut sitji með tóma vasa áfram fastir í sömu umferðarteppunni.
Óráðsía þarf ekki að vera regla. Mikilvægt er að ofvaxnar ríkishugmyndir fái raunverulega samkeppni. Laugarnesgöng eru svipað og Hvalfjarðargöng sjálfbær framkvæmd. Það eina sem þarf til er að þeir sem sjá tækifærið taki sig saman með félag svipað og Spölur forðum og bjóði fólki betri leið en afarkosti Sundabrautarinnar. Þau eru vandfundin viðskiptatækifærin sem geta sparað 100 milljarða. Er ekki kominn tími á að bjarga selunum?
Jóhannes Loftsson. Greinin var birt fyrst í morgunblaðinu 19. apríl 2024
Höfundur er formaðu Ábyrgrar Framtíðar
Comments