Um 800 milljarða tekjur af erlendum ferðamönnum týndust í kófinu.
Í fyrri greinum 29. júní, 7. og 18. júlí og 16. ágúst var fjallað um aðdraganda kórónufaraldursins og í grein 6. september var byrjað að fjalla um afleiðingarnar. Nú verður fjallað um kórónu-verðbólguna.
Nokkuð undarleg umræða hefur spunnist að undanförnu um rót yfirstandandi verðbólguskots, þar sem ásakanir hafa gengið á víxl. Sumir kenna skattahækkunum um, aðrir okurkaupmönnum og enn aðrir launafrekju verkalýðsins. Allt er þetta rangt, því þetta eru afleiðingar. Um raunverulega rót verðbólgunnar ríkir enn þöggun. Alla núverandi verðbólgu má nefnilega rekja til óstjórnar í hagstjórn á covid-tímanum.
En hvað er verðbólga? Hagfræðingurinn Milton Friedman skýrir það nokkuð vel í mörgum fyrirlestrum.1) Verðbólga er leiðrétting á virði peninga eftir að ójafnvægi skapast á milli peningamagns í umferð og magns á framleiðsluvöru.
Best er að skýra þetta með dæmi: Ef yfirvöld myndu dag einn leyfa fólki að prenta sér peninga að vild tæki í fyrstu við gósentíð þar sem allir þeir nýríku færu út að versla. En þegar vörur í búðum færu að klárast myndu kaupmenn bregðast við og hækka vöruverð. Verðmæti peninganna yrði þannig endurmetið og áður en langt um liði yrðu peningar ekki lengur virði pappírsins sem þeir væru prentaðir á.
Verðbólgutímabilin eru því tvö. Fyrst er gósentíð á meðan hagstjórnarmistökin eiga sér stað en síðan tekur við uppgjörstíð þegar virði peninganna er leiðrétt.
Mikilvægt er að átta sig á að eftir að verðlausum peningum hefur verið komið í umferð er ekkert í þessum heimi sem getur komið í veg fyrir verðbólguskotið sem fylgir. Skaðinn er skeður og afleiðingarnar eru óumflýjanlegar.
Eftir að skaðinn er skeður verða tól seðlabankans líka bitlaus. Tökum t.d. stýrivextina sem dæmi. Á sama hátt og þú minnkar ekki súrefnisinntöku með að halda í þér andanum, þá dugar stýrivaxtahækkun stutt. Því um leið og Seðlabankinn gefst upp á hávaxtastefnunni og lækkar stýrivexti aftur ganga áhrifin til baka og verð hækkar. Stýrivextir jafna því bara úr verðbólgukúrfunni en yfir lengri tíma verður heildarverðbólguskotið það sama. Ef of langt er gengið í stýrivaxtahækkunum getur verðbólgan jafnvel aukist til lengri tíma. Það leysir nefnilega enginn húsnæðisvanda með því að hætta að byggja húsnæði og nú hafa stýrivextir gert lánsfé það dýrt að uppbygging er að stöðvast. Þegar stýrivextir verða lækkaðir aftur verður íbúðaverð því enn hærra en áður en stýrivaxtatólinu var beitt, því húsnæðisþörfin er orðin enn meiri en nokkru sinni fyrr.
Eini tíminn sem Seðlabankinn hefði getað beitt sér var þegar verið var að gera hagstjórnarmistökin. Mistök sem enginn vildi sjá en öllum með augu ættu að hafa verið alveg fullljós: Fasískar sóttvarnaraðgerðir yfirvalda sem stöðvuðu verðmætasköpun stærstu atvinnugreinar landsins í rúm tvö ár. Framleiðsludýfan milli 2019 og 2023 varð gríðarleg eða hátt í 800 milljarðar. Til að fela niðursveifluna var tekin meðvituð ákvörðun af yfirvöldum um að keyra peningaprentun í botn. Stýrivextir voru lækkaðir undir verðbólgu, björgunarpökkum var dreift um allt og nýjum ríkisfjármögnuðum sóttkvíariðnaði ýtt úr vör. Slík fjármálastefna peningaprentunar og framleiðslustopps var í raun uppskriftin að risaverðbólguskoti sem Milton Friedman varaði við.
Veruleikaflóttapartíið var byrjað og allt gert til að almenningur áttaði sig ekki á efnahagsskaðanum sem glórulausar landamæralokanir ollu. Ef það hefði ekki verið gert hefði þessari sjálfskaðahagstjórn verið sjálfhætt því fólk hefði fundið fyrir kreppunni strax og risið upp gegn ofbeldinu.
Ólíklegt verður að teljast að yfirvöld hafi ekki vitað að þau voru að hlaða verðbólgubyssuna. En í stað þess að vara fólk við var fólk hvatt til að skuldsetja sig í botn með lágum vöxtum og nýjum hlutdeildarlánum fyrir þá tekjuminnstu. En meðvirknin hætti ekki þar, því þegar kom að því að forðast ábyrgð með að hlýða í blindni sóttvarnarstefnu sem kokkuð var af lyfjafyrirtækjunum sjálfum voru allir þingflokkar í sama klappliði: Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, VG, Miðflokkurinn, Samfó, Viðreisn, Flokkur fólksins og Píratar. Eina stjórnmálaaflið sem nokkurn tímann hefur þorað að gagnrýna sjálfskaðastefnuna og vara við afleiðingunum er Ábyrg framtíð.2)
Það er því engin tilviljun að enginn þeirra vill sjá bleika fílinn sem er búinn að bramla allt í stofunni. Þetta er þeirra fíll. Þau bjuggu hann sjálf til.
Jóhannes Loftsson. Greinin birtist fyrst í morgunblaðinu 23. september 2023
Höfundur er stofnandi Ábyrgrar framtíðar.
留言