Oddviti Ábyrgrar Framtíðar, Jóhannes Loftsson, mætti í síðdegisútvarp Bylgjunnar á föstudaginn og ræddi stefnumálin. Hvernig Viðeyjarleiðin mun enda húsnæðisvandann um langa framtíð og leysa stóran hluta umferðarvandans. Stærð Reykjavíkur mun nánast tvöfaldast, aðeins mun taka 10 mínútur að komast í Grundarhverfi á Kjalarnesi úr miðbænum og umferðarvandamál á sæbraut og hluta miklubrautar munu heyra sögunni til.
Eins var komið inn á hvernig hægt er að ná mun meiri árangri í að bæta umferðarflæðið með því að hafa mælanlegan stika yfir hagkvæmni slíkra framkvæmda og fara í margar minni úrbætur strax. Dæmi um slíkar úrbætur væri að skipta út öllum stökum gönguljósum á miklubraut og kringlumýrarbraut með göngubrúm og fara svo í framhaldinu í stórátak í að bæta umferðarflæðið.
Einnig var bent á hvernig það getur verið vandamálum bundið að ætla að lækka húsnæðisverð á sama tíma og rándýr verkefni eins og Borgarlínan, Miklubrautarstokkur og Hvassahraunsflugvöllur eiga að vera fjármagnaðir á lóðasölu. Slíkt er í raun útilokað. Kostnaður þessar verkefna mun alltaf enda í húsnæðisverði með vöxtum og vaxtavöxtum.
Eins var rifjuð upp reynsla Bergenbúa af veggjöldum, sem voru stórhækkuð eftir að í ljós kom að borgarlínuverkefni þeirra var ekki að draga úr umferð einkabíla. Aðeins þá fór umferðin að minnka.
Hækkun húsnæðisverðs og innleiðsla nýrrar skattheimtu í formi innabæjarveggjalda er meginástæða þess að hafna verður samgöngusáttmálanum. Verkefnin þar eru einfaldlega allt of dýr og gagnslítil, og munu á endanum ganga djúpt á pyngju borgarbúa.
Comentarios