Hröð uppbygging öríbúða í úthverfi eins og Keldum gæti leyst húsnæðisvanda ungs fólks og tekjulágra á örskömmum tíma.
Það er eitthvað skrýtið í gangi í Reykjavík. Á meðan húsnæðisvandamál ungs fólks og tekjulágra fara sífellt versnandi þá er ekki verið að mæta þörfinni um ódýrt húsnæði. Í staðinn er nær eingöngu byggt miðsvæðis á dýrasta stað í bænum á svæði þar sem alls konar flækjustig tefja alla uppbyggingu. Ásókn ferðamanna í þetta svæði er síðan það mikil og vaxandi að nær engar líkur eru á ódýru húsnæði á þessu svæði á næstu árum. Með stefnu sinni að þvinga þéttingu byggðar, má segja að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að sinna eingöngu lúxusvandamáli í ferðamannaiðnaðinum, en horfa framhjá bráðavandanum. Slík afstaða er ábyrgðarhluti, því langan tíma tekur að leysa húsnæðisvanda ungs fólks og tekjulágra ef stærsta sveitarfélagið stimplar sig út með þessum hætti.
Áratugur í úrlausn ef ekkert breytist
Í miðbænum er öll uppbygging í eðli sínu hægari vegna alls konar flækjustigs í skipulagsvinnu. Meiri þrengsli og hæsta lóðaverðið keyra síðan byggingarkostnað upp í hæstu hæðir. Of mikil þétting í grónu hverfi getur síðan leitt til alls konar vandamála síðar meir þegar innviðir anna ekki hinu aukna álagi. Vegir stíflast, bílastæði vantar, holræsa- og veitukerfi anna ekki álagi og skólar yfirfyllast. Þegar byggja þarf upp slíka innviði, sem samt þurfa að vera áfram í notkun, getur kostnaðurinn orðið margfaldur miðað við ef byggt væri nýtt.
Ekkert betra tekur við á nýjum umbreytingasvæðum eins og á Ártúnshöfða og við Elliðavog þar sem breyta á iðnaðarsvæði í íbúðasvæði. Því að til að sú aðgerð borgi sig, þá þarf íbúðaverðið að bera kostnað við flutning alls iðnaðarhúsnæðisins sem fyrir var, niðurrifs ef ekki er unnt að breyta því, auk alls byggingarkostnaðarins við nýju íbúðina. Byggingarkostnaðurinn getur þannig hátt í tvöfaldast og því er meira að segja óvíst hvort að núverandi fasteignaverð beri slíka framkvæmd. Uppbygging þessara hverfa gengur því hugsanlega út frá því að fasteignaverð eigi eftir að hækka töluvert í viðbót.
Horfurnar eru jafnvel enn verri á Reykjavíkurflugvelli, því auk uppkaupa á landi þá verður einhver að bera kostnaðinn af byggingu nýs flugvallar og uppkaupum og niðurrifi á þeim byggingum sem þar eru fyrir. Einnig má telja verulega óvissu á því hvort af lokun flugvallarins verði þar sem stór meirihluti landsmanna vill halda Reykjavíkurflugvelli. Því munu a.m.k.líða 10-15 ár áður en flugvöllurinn fer.
Gríðarleg fjölgun ferðamanna hefur gjörbreytt fasteignamarkaðnum og á örugglega stóran þátt í mikilli hækkun á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu (sjá mynd). Allar íbúðir miðsvæðis sem ferðamannaiðnaðurinn gleypir ekki fara eingöngu til þeirra sem eru reiðubúnir að borga mun hærra verð fyrir staðsetninguna. Slík þróun er ekkert óeðlileg og þekkist t.d. í flestum stórborgum heims. Það er aftur á móti óvenjulegt að samhliða þessari þéttingu byggðar sé ekki verið að mæta þörfum tekjuminna fólks með hraðri uppbyggingu úthverfa.
Öríbúðabyggð á Keldum
Nóg er af úthverfum í Reykjavík þar sem hægt væri að byggja hratt til að mæta þörfinni. Að Korputorgi er ekki nema 5 mínútna akstur frá Grensásvegi og frá Keldum er ekki nema 3 mínútna akstur. Þessi ónotuðu svæði hafa það fram yfir miðbæinn að auðvelt væri að byggja þar hratt mikið byggingamagn á lágmarkskostnaði, en vegna staðsetningar þá mun ásókn ferðamannaiðnaðarins í þessar íbúðir verða mun minni en í miðbænum. Við Keldur eru 80 hektarar af byggingarhæfu landi sem er að stórum hluta í ríkiseigu. Svæðið liggur að verslunarsvæðum og nær allar tengingar við gatnakerfið og hjólastíga eru þegar til staðar og því auðvelt að koma við öflugum almenningssamgöngum. Þéttur öríbúðafjölbýliskjarni á þessum stað gæti því orðið mjög eftirsóknarvert búsvæði sem hratt gæti mætt þörf markaðarins fyrir hagkvæmt húsnæði.
Borgin misskilur hlutverk sitt
Á sama tíma og borgin slugsar við að sinna eðlilegri uppbyggingu hagkvæmustu svæða er fyrirhugað að eyða stórfé í rándýrar félagslegar íbúðir á dýrasta stað í bænum. Slík verkefni eru hreint fáránleg sóun á almannafé. Félagsleg búsetuúrræði eru fátæktargildra þar sem fólk sem fer að vinna í eigin málum á það á hættu að missa búseturétt ef tekjur fara yfir lágmark. Ef sama fé væri notað í gatnagerð og innviði í öríbúðabyggð í Keldnahverfi þá myndu vandamálin leysast af sjálfu sér með sjálfbjarga íbúa.
Það er ekki hlutverk borgarinnar að nota aðkomu sína að skipulagsferlinu til lóðabrasks eða til að þvinga fram útópíudrauma um þéttingu byggðar. Byggð þéttist af sjálfu sér af eðlilegum orsökum án þess að hönd stjórnmálamanna þurfi að koma nærri. Nóg er til af ódýru byggingarlandi í Reykjavík. Takmörkun á uppbyggingu ódýrustu svæða er meiriháttar aðför að hag ungs fólks og tekjulágra, sem fyrir vikið þurfa að borga mun hærra verð fyrir að fá þak yfir höfuðið. Borgin hefur algjörlega brugðist þessu fólki. Öll hækkun fasteignaverðs sem kemur til vegna tilbúins lóðaskorts er gerviverðmæti, sem auðveldlega þurrkast út þegar næsta fasteignabóla springur og markaðurinn leiðréttir sig. Eftir situr almenningur með sárt ennið og skuldugur upp fyrir haus.
Jóhannes Loftsson. Greinin birtist fyrst í morgunblaðinu 13.8.2016
Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull í stjórn frjálshyggjufélagsins.
댓글